135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:56]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræðu sem hér hefur farið fram er dálítið sérstök og einkennist af því að stjórnarliðar verja að sjálfsögðu sitt lið og svo sækir stjórnarandstaðan á.

Ég ætla að brydda aðeins upp á þeim tillögum sem bornar voru upp af talsmanni fjárlaganefndar í aðdraganda þess að við samþykktum fjárlögin. Þær voru tvær. Annars vegar að draga saman í samgöngumálum og hins vegar að hætta við bætur á kjörum lífeyrisþega. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þessar tillögur talsmanns Framsóknarflokksins í fjárlagagerðinni (Gripið fram í: … eins og allir sjálfstæðismenn …) hlutu að því ég best veit ekki miklar og góðar viðtökur innan þingflokks Framsóknarflokksins. Það getur vel verið að óeiningin þar stafi af því að þeir hafi ekki lesið blöðin nægilega vel. Dettur mönnum í hug að einhver trúi því að hægt sé að stýra fjármálum íslenska ríkisins með dagblaðalestri? Hvaða ábyrgðarleysi er þetta?

Að sjálfsögðu get ég tekið undir það sem hér hefur komið fram að við eigum og þurfum að efla vöxt í landinu með því stuðla að því að framleiðsluatvinnuvegirnir blómstri og gefi eitthvað af sér. Menn hafa notað hér líkingar við sjómennsku. Ég veit ekki til þess að margir hv. þingmenn hafi migið í saltan sjó. (Gripið fram í: Jæja?) Enda kemur það fram … ekki margir, fyrirgefðu, hv. þingmaður. (Iðnrh.: Ég hef gert það.) Hæstv. iðnaðarráðherra tilkynnir hér hátíðlega að hann hafi gert það og skal þakkað fyrir það. En í málflutningi þeirra sem taka samlíkinguna af sjónum kemur fram að þeir hafa ekki hugmynd um um hvað þeir eru að ræða. Þeir bera þá líkingu upp með mjög misjöfnum hætti eins og þeir koma fram í umræðu um efnahagsmál landsins. Hún einkennist af þeirri ókyrrð og þeim óstöðugleika sem er vissulega nú um stundir. Til þess að taka á honum þurfa allir að leggjast á eitt með að vinna sig út úr þeim vanda.