135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:06]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun. Nefndin hefur fjallað um málið á allnokkrum fundum, fengið á sinn fund fjölmarga gesti og farið yfir umsagnir.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun laga um samræmda neyðarsímsvörun. Lagt er til að nýtt heiti komi á lögin þannig að miðað verði við hugtakið „neyðarsvörun“ sem er víðtækara hugtak en neyðarsímsvörun. Neyðarsvörun er ætlað að stuðla að auknu öryggi þeirra sem eru staddir á landinu og í næsta nágrenni. Einnig er henni ætlað að uppfylla skyldur stjórnvalda til að veita viðtöku tilkynningum um bruna, slys og önnur neyðartilvik í því skyni að koma tilkynningu um það til hlutaðeigandi stjórnvalds eða þess sem sinnir neyðarþjónustu í hverju tilviki. Neyðarnúmerið 112 er sameiginlegt fyrir öll ríki Evrópska efnahagssvæðisins og var Neyðarlínan hf. upphaflega sett á fót með þátttöku einkaaðila en er nú að mestu leyti í eigu opinberra aðila.

Allsherjarnefnd leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á 3. mgr. 2. gr. að í stað orðsins „leyfi“ komi „heimild“. Þetta þykir réttara orðalag í ljósi þess að fjarskiptafyrirtæki hafa almenna heimild til starfa skv. 4. gr. laga um fjarskipti en þurfa ekki að fá úthlutað leyfi til þess. Þá er lagt til að við sama ákvæði bætist nýr málsliður þess efnis að þeir aðilar sem skilgreindir eru í 3. mgr. 2. gr. skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vaktstöð samræmdrar neyðarþjónustu berist sjálfvirkt með rafrænum hætti nýjustu gögn um notendur, auðkenni þeirra og staðsetningu, eftir því sem við verður komið.

Þá er lagt til að 1. mgr. 3. gr. verði breytt þannig að í stað þess að kveðið verði á um að vaktstöðvar skuli vera í Reykjavík og á Akureyri verði lögbundið að vaktstöðvar séu tvær og önnur verði í Reykjavík. Ekki er þá með lögunum tekin afstaða til þess hvar hin stöðin skuli vera staðsett.

Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 4. mgr. 5. gr. Er annars vegar lagt til að í stað orðsins „beiðni“ í 1. málsl. komi orðið „tilkynning“ til samræmis við aðra hugtakanotkun í frumvarpinu. Hins vegar er lögð til breyting á 2. málsl. þess ákvæðis og er þar kveðið á um að það varði refsingu að senda vísvitandi ranga tilkynningu til samræmdrar neyðarsvörunar eða að misnota að öðru leyti þjónustu hennar við boðun viðbragðsaðila. Nefndin leggur til að orðin „við boðun viðbragðsaðila“ falli brott til að ákvæðið verði ekki óþarflega þröngt.

Þá er lögð til, til skýringar, orðalagsbreyting á 6. gr., lítils háttar breytingar.

Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 8. gr. Í fyrsta lagi að fallið verði frá því fyrirkomulagi að jöfnunargjald, sem lagt er á samkvæmt fjarskiptalögum, verði notað til að greiða kostnað við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar. Kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar skal því greiðast úr ríkissjóði og af þeim tekjum sem vaktstöð hefur af þjónustu sinni. Í öðru lagi er lagt til að við bætist ákvæði um að kveða skýrt á um aðskilnað þeirrar starfsemi sem stunduð er í almennri samkeppni og þeirrar starfsemi sem tengist rekstri vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar. Leggur nefndin í því sambandi til að við 8. gr. bætist ný málsgrein sem verði í samræmi við 14. gr. samkeppnislaga, nr. 44/ 2005. Þetta tvennt sem ég nefndi hér síðast eru þær helstu efnislegu breytingar sem allsherjarnefnd leggur til, annars vegar að jöfnunargjald, sem fram til þessa hefur verið lagt á símfyrirtækin, og hefur staðið undir hluta af kostnaði Neyðarlínunnar — að í þessum lögum verði ekki lengur gert ráð fyrir því að jöfnunarsjóðsgjaldið sé lagt til Neyðarlínunnar heldur að sá kostnaður sem þar um ræðir, sem mér finnst líklegt að geti verið einhverjir tugir milljóna, kannski 30 milljónir, á þessu ári, greiðist þess í stað úr ríkissjóði.

Ástæður þessa eru deilur sem hafa um allnokkurt skeið átt sér stað milli fjarskiptafyrirtækjanna og Fjarskiptastofnunar vegna álagningar þessa jöfnunargjalds og ráðstöfun þess en um það er lagalegt ágreiningsefni hvort heimilt sé að nota jöfnunargjald með þeim hætti sem um ræðir, bæði hvort lagastoðin hér innan lands sé fullnægjandi og hvort þessi tilhögun samræmist skuldbindingum okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Af þessum sökum, án þess að afstaða sé tekin til þess hvað sé rétt eða rangt í þeim efnum, þykir allsherjarnefnd betur fara á því að þessi kostnaður sem tengist neyðarsvörun sé borinn af ríkissjóði frekar en fjarskiptafélögunum sérstaklega. Þess má geta að fjarskiptafélögin eru skyldug samkvæmt öðrum ákvæðum til þess að veita aðgang að neyðarnúmeri notendum að kostnaðarlausu og það breytist ekki. Það sem breytist með þessu er það að í rekstri Neyðarlínunnar verður ekki hægt að gera ráð fyrir þessu framlagi frá fjarskiptafélögunum en þess í stað mun koma framlag úr ríkissjóði.

Hin breytingin, sem telja má efnislega, varðar það að með skýrum hætti verði greint á milli samkeppnisrekstrar og þess rekstrar Neyðarlínunnar sem verndaður er sem opinber þjónusta. Komið hafa upp ágreiningsmál sem tengjast því að Neyðarlínan hafi farið út í starfsemi sem telja má í samkeppni við einkaaðila á afmörkuðum sviðum og til þess að það sé alveg skýrt leggur nefndin til að slík starfsemi, þ.e. samkeppnisstarfsemi Neyðarlínunnar, verði aðskilin frá öðrum þáttum starfseminnar með sama hætti og gert er ráð fyrir í samkeppnislögum þannig að tryggt sé að um rekstrarlega aðgreiningu sé að ræða að því leyti.

Ég hef nú gert grein fyrir nefndarálitinu og þeim breytingartillögum sem allsherjarnefnd gerir.

Undir nefndarálitið rita auk mín Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Herdís Þórðardóttir, Karl V. Matthíasson og Atli Gíslason skrifaði undir með fyrirvara. Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Að lokum, herra forseti, vildi ég geta þess að ég mun gera tillögu um það við afgreiðslu málsins við 2. umr. að það gangi til nefndar að nýju milli 2. og 3. umr., ekki vegna þess að ég hafi uppi nein áform um efnislegar breytingar heldur til þess að tryggja að vel sé gengið frá ákveðnum lagatæknilegum atriðum. Legg ég því til að málið gangi að nýju til nefndar á milli 2. og 3. umr.