135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:07]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að Alþingi hefur verið niðurlægt á margan hátt. Það hefur ekki fengið að koma að þeirri tillögugerð sem ríkisstjórnin er væntanlega að undirbúa, sem við höfum reyndar ekkert heyrt af. Okkur hefur ekki verið sagt að neitt væri í gangi hvað það varðar að koma með tillögur til að leiðrétta þessi ólög sem við höfum búið við. Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða. Við skulum ekki gleyma því. Alþingi hefur ekkert komið nálægt þessu. Við vitum ekkert hvað er í gangi. Þetta er alfarið í höndum sjávarútvegsráðherra eftir því sem maður best veit. Það getur vel verið að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra séu með í ráðum en alla vega er þingið ekki haft með í ráðum með neinum hætti, ekki einu sinni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem ætti væntanlega að fjalla um einhverjar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson má ekki gleyma því að þessar hörmungar, þessi ógæfa sem hefur dunið yfir fólk, atvinnuleysi og ýmis félagsleg vandamál, er afleiðing núverandi fiskveiðistjórnarkerfis og þó að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefði aldrei veitt okkur gult spjald eða rautt hefðum við þurft að breyta til þess að laga til í samfélaginu. Það er ekki hægt að horfa upp á það að aðalauðlind þjóðarinnar, sennilega upp á þúsund milljarða, sé afhent fáum útvöldum og aðrir skildir eftir úti í frostinu. Það er ekki hægt að sætta sig við það og það ættu jafnaðarmenn alls ekki að sætta sig við.