135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:09]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir orð hans hér. Ég er á þeirri skoðun að við upphaf laganna um fiskveiðistjórnina hafi fáum útvöldum verið úthlutuð þessi auðlind og því miður á þetta sér stað oftar. Sumir eru á þeirri skoðun t.d. að þegar Búnaðarbankinn var seldur hafi eitthvað svipað átt sér stað. Ég ætla svo sem ekki að fara út í neina langhunda um það hér en benda má á að oft er verið að láta af hendi gæði sem samfélagið á allt í fárra hendur. Það er vert fyrir þjóð og þegna landsins að hugsa um það hvernig þessum málum er háttað og hvert menn vilja stefna í þessu. Auðlindaumræðan öll þarf að vera miklu magnaðri í landinu að mínu viti en úrskurði mannréttindanefndarinnar er náttúrlega vísað til ríkisstjórnarinnar.

Þegar mannréttindanefnd fellir úrskurð fer úrskurðurinn til ríkisstjórnarinnar og hún á að bregðast við. Ég á sjálfur von á því að ríkisstjórnin muni bregðast þannig við að þá komi einhvers konar frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Ég geri ekki ráð fyrir öðru og þá mun þingið fá það til umfjöllunar. Það er aðskilnaður á milli, framkvæmdarvaldið sér um framkvæmdina á hlutunum og löggjafarvaldið setur lögin.