135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:13]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Grétar Mar Jónsson gera fullmikið úr þessari samlíkingu. Ég var bara að tala um það að í mörgum tilvikum fyndist fólki að ýmis gæði væru afhent fyrir lítið eða ekkert. Ég nefndi að slíkt hefði komið til umræðu á sínum tíma hvað varðar Búnaðarbankann, ég var alls ekki að leggja þetta að jöfnu.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður talar um í sambandi við byggðirnar. Það er alveg ljóst að eftir að lög um stjórn fiskveiða tóku gildi hefur líf í sjávarbyggðum farið niður á við. Ekki þarf annað en fara í heimabyggð hv. þingmanns og margar aðrar byggðir til að sjá að varla eru gerðir út bátar lengur þar sem áður var blómlegt líf í kringum útgerð, það er kristaltært. Aflaheimildirnar hafa farið frá litlu útgerðunum, þeim hefur fækkað og þær fara á æ færri hendur. Fiskveiðistjórnarkerfið er hræðilega lélegt og mér finnst það hörmulegt þegar menn tala um að gera það að einhvers konar útflutningsvöru eins og um hvern annan saltfisk sé að ræða. Það er náttúrlega dapurlegt og á að forðast það.

En ég undirstrika það sem ég sagði áðan vegna andsvars hv. þingmanns: Úrskurður mannréttindanefndarinnar kemur inn á borð ríkisstjórnarinnar og hún hlýtur að vinna úr honum og svara honum. Þannig virkar þetta. Ríkisstjórnin leggur þá væntanlega fram frumvarp sem Alþingi Íslendinga hlýtur að fjalla um. En mér þykir leitt að hv. þingmaður lagði svona mikla áherslu á þessa líkingu, hún var ekki sögð til þess að leggja þetta tvennt að jöfnu.