135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:16]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Karl V. Matthíasson sagði í ræðu sinni áðan að hann gerði ráð fyrir að farið hefði fram mikil vinna í sjávarútvegsráðuneytinu og gaf sér að ríkisstjórnin mundi fara að áliti mannréttindanefndar. Þá segi ég: Hvaða upplýsingar hefur hv. þm. Karl V. Matthíasson um það? Ég man ekki betur en að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi heldur betur vafist tunga um tönn þegar samflokksmaður hv. þm. Karls V. Matthíassonar, hv. þm. Ellert B. Schram, innti hæstv. sjávarútvegsráðherra eftir því hvernig þetta væri. Þá tók hæstv. sjávarútvegsráðherra einmitt fram að við værum ekki bundin af þjóðarrétti að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Ég tók sérstaklega eftir því að hv. þm. Karl V. Matthíasson gat ekki lýst yfir stuðningi við þá þingsályktunartillögu sem við flytjum hér, sex þingmenn, um að Ísland láti af mannréttindabrotum, hann gat ekki lýst yfir stuðningi. Þess vegna vil ég spyrja hann hreint út: Styður hann að farið verði að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eða styður hann það ekki?

Varðandi það síðan að koma og vísa til dauðarefsinga í Írak velti ég fyrir mér hvaða erindi það ætti í umræður um þetta mál sem er allt annað mál. Mér varð fyrst fyrir að hugsa: Eru þeir samfylkingarmenn lagstir í það mikil ferðalög að þeir séu orðnir víðs fjarri íslenskum þjóðarveruleika, að þeir skynji ekki hvaða vandamál brennur á fólkinu í landinu? Kemur skírskotun þeirra og öll upphefð að utan?