135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:19]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég beindi sérstaklega þeirri spurningu til hv. þm. Karls V. Matthíassonar hvort hann styddi það meginefni þeirrar þingsályktunartillögu sem hér um ræðir að farið yrði að áliti mannréttindanefndarinnar. Hér er mjög einföld og skýr spurning og hann kinokar sér við að svara, hann kemur sér undan því að svara og ég spyr hann aftur: Telur hv. þm. Karl V. Matthíasson að íslenska ríkið eigi að fara að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og láta af mannréttindabrotum eða er hann á móti þessari þingsályktunartillögu, já eða nei? Ég hvet hv. þingmann til að svara því skilyrðislaust þannig að fólkið í landinu geri sér grein fyrir hinni raunverulegu afstöðu þingmannsins.

Annað atriði sem hv. þm. Karl V. Matthíasson ruglaði hér inn í umræðuna var sala á Búnaðarbankanum. Ef farið hefði verið að einkavæðingu á bönkunum með sama hætti og gjafakvótakerfið hefði það verið með svipuðum hætti og að á ákveðnum föstudegi í ákveðnum mánuði fyrir 20 árum eða 30 hefði Landsbankanum verið lokað á ákveðnum tíma og þá hefði verið sagt: Þeir sem eru inni í bankanum núna eiga bankann, gjörið svo vel. Það var þannig sem kvótakerfið varð til. Það var gjafakvótakerfi, þeir sem voru inni í bankanum, þeir sem voru inni í kerfinu, áttu bankann, þeir áttu kvótann. Það er það sem við erum á móti og það er það sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna segir: Þetta gengur ekki, það er ekki hægt að skylda ákveðinn hluta borgaranna til að kaupa það sem þjóðin á meðan aðrir fá þetta gefins.

Ég spyr ítrekað hv. þm. Karl V. Matthíasson: Ertu sammála því að mannréttindabrot haldi áfram á Íslandi eða ertu (Forseti hringir.) sammála þingsályktunartillögu okkar?