135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:34]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvar formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er. Við störf vænti ég. En ég er varaformaður þessarar nefndar og hv. þingmaður spurði mig hvað væri að gerast í ráðuneytinu í þessum málum.

Ég náttúrlega er ákaflega lítið uppi í ráðuneyti. Ég er alþingismaður og er hérna í þinginu (SF: Þú situr með ráðherrunum í þingflokknum.) og sit reyndar með hæstv. ráðherrum hér í sal stundum. (SF: Í þingflokknum.) Það sem ég sagði áðan var að ég reiknaði fastlega með því að það væri verið að vinna í þessu máli og í raun er ekki öðru til svara. Ég get svo sem skroppið upp í ráðuneyti og spurt að því fyrir hv. þingmann ef það er eitthvað vandamál. En málið er bara eins og ég segi að ég veit ekki annað en að verið sé að vinna að þessu máli. Það er búið að láta ríkisstjórnina fá þennan úrskurð í hendur og hún hlýtur að vera að fjalla um hann. Þetta er það alvarlegt mál.

En hvort að formaður sjávarútvegsnefndar þurfi að koma hingað til að svara því sérstaklega hvað sé að gerast uppi í ráðuneyti, mér finnst það nú ekki endilega það nauðsynlegasta í þessu því ég býst ekki við öðru en að svörin verði mjög svipuð og koma af mínum vörum hér.