135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði góðan hug hv. þm. Karls V. Matthíassonar í þessu máli þó ég geri mér jafnframt grein fyrir vanmætti hans í að fylgja þessu máli fram. Hv. þingmaður nefndi það hér til málsbóta að hann treysti því eða að hann byggist við að unnið væri að þessu máli í sjávarútvegsráðuneytinu. Ekki var það ég sem nefndi það að fyrra bragði.

Hins vegar hlýtur maður að velta því fyrir sér hver staðan sé. Ég vitnaði til orða hæstv. forsætisráðherra sem talaði þannig að það þyrfti ekkert að gera neitt sérstakt með þetta álit mannréttindanefndarinnar. Ég vitnaði til orða hæstv. sjávarútvegsráðherra sem var á sömu skoðun. Ég vitnaði einnig til orða hæstv. utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar, sem taldi að það ætti að gera eitthvað með álitið. Gagnvart þinginu og gagnvart alþjóð og gagnvart alþjóðasamfélaginu er því hér talað í kross, talað í tvær áttir af hálfu forustumanna ríkisstjórnarflokkanna. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu viljum fá þetta mál formlega inn í þing. Við treystum ekki, eðlilega, ríkisstjórninni til að fara með málið og þess vegna er eðlilegt að málið sé tekið hér inn í þing.

Ég virði góða viðleitni og orð hv. þm. Karls V. Matthíassonar. En ég hygg að hann sé alveg jafnnær að svara fyrir hvað sé að gerast í málinu af hálfu Sjálfstæðisflokksins og ég (Forseti hringir.) að öðru leyti en því að getað vísað til þeirra yfirlýsinga sem hafa komið fram í fjölmiðlum um hvernig þeir líta á það að það eigi ekkert að gera.