135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:42]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls ber þakka fyrir það að hv. þm. Karl V. Matthíasson, varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, skyldi þó vera í salnum til að ræða þessi mál. Hann hefur vissulega gert það og ber að þakka það.

Ég verð hins vegar segja það, hæstv. forseti, að ég sakna Sjálfstæðisflokksins í salnum. Það er enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hér til að ræða það mikilsverða mál sem við erum að fjalla um sem er það hvort mannréttindi séu brotin á Íslandi og það er auðvitað niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í þessu máli að svo sé. Ef hins vegar má draga þá ályktun af orðum hv. þm. Karls V. Matthíassonar að sjálfstæðismenn sem fara með þetta ráðuneyti og þeir sem huga að málum þar séu að vinna að málinu og séu ekki staddir hér þess vegna þá fagna ég því alveg sérstaklega ef svo er. Og ef það er svo að allur Sjálfstæðisflokkinn þurfi að skoða málið er það auðvitað fagnaðarefni líka en ég sé samt að einn hv. þingmaður þeirra er nú þegar genginn í salinn og er þar af leiðandi ekki upptekinn við að bæta úr því mannréttindaákvæðisbroti sem við erum að fjalla um.

Okkur þótti ástæða til þess nokkrum þingmönnum Frjálslynda flokksins og Vinstri grænna að flytja þetta mál til þess að fá fram ályktun Alþingis, vilja Alþingis og afstöðu gagnvart þeirri niðurstöðu sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komst að í málinu sem var sú að jafnræði og mannréttindi væru brotin á þegnum landsins hvað varðar aðgengi að þeirri atvinnugrein að stunda fiskveiðar hér við land. Almenna reglan hjá okkur sjálfum í málum sem varða takmörkun á atvinnufrelsi byggir á því að slíkt frelsi megi eingöngu takmarka að því gefnu að það sé í almannaþágu, að það þjóni hagsmunum þjóðarinnar alveg sérstaklega að meina mönnum þátttöku í einhverri atvinnugrein og fyrir því þurfi að færa sérstök rök. Þau rök voru borin á borð þegar þetta kerfi var sett á og þá eingöngu til reynslu í eitt ár haustið 1983. Þá þóttust menn sjá ýmis merki þess að þorskstofninn væri á verulegri niðurleið og rétt væri að bregðast við því. Niðurstaðan var sú að menn settu á tímabundið kvótakerfi. Þegar kvótakerfinu var komið á giltu hins vegar ýmis önnur lög og reglur sem gerðu það að verkum að þeir sem áttu útgerð gátu breytt stöðu sinni og gert út. Þar að auki voru minni bátar undanþegnir kvótakerfinu á þeim tíma og þar af leiðandi höfðu þegnar íslenska ríkisins möguleika á að hefja útgerð eins og lögin voru þá úr garði gerð og voru reyndar fram undir 1990 þegar hægt var að hefja útgerð með tiltölulega frjálsum heimildum í ákveðnum útgerðarflokkum, einkum á svokölluðum minni bátum eða bátum sem hafa löngum þjónað smærri sjávarbyggðum landsins.

Þannig var þetta kerfi lengi vel og það var í rauninni ekki fyrr en eftir árið 2000 sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist sérstaklega fyrir því að leggja algjörar hömlur á það atvinnufrelsi með því að afnema öll lög sem snúa að frelsi til fiskveiða og einnig hvað varðaði smábátana. Það er saga sem væri náttúrlega hægt að rekja í þinginu að þar með var kerfinu endanlega lokað. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að rétt sé að byggja úrskurðinn á þeirri lagasetningu sem gerð var árið 1990 þegar frjálsa framsalið var innleitt í kvótakerfið. Þegar mönnum sem þá höfðu notað veiðiheimildir og haft þær undir höndum var gefinn sá réttur að geta selt þær eða leigt og sá réttur í raun og veru tekinn af íslensku þjóðinni sem henni er markaður í lögum um stjórn fiskveiða að auðlindin í hafinu sé sameign íslensku þjóðarinnar sem á þar af leiðandi forgang til afgjalds af sameigninni, og að henni eigi að stýra og úthluta með sem mestu jafnræði milli þegnanna og þar á fólkið í sjávarbyggðunum allt í kringum landið eðlilega líka sérstakan rétt til að viðhalda eignastöðu sinni og atvinnufrelsi. Brotið var á þessum atriðum og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ólögmætt. Það sé ólögmæt mismunun sem upp hafi verið tekin að setja þá kvöð á menn að þurfa að kaupa veiðiréttinn, óveiddan fisk í sjónum af einstaklingum sem fengu réttinn, eða að leigja heimildirnar af einstaklingum sem fengu hann úthlutaðan. Þetta er meginefni málsins.

Þegar menn heyrðu það úti í þjóðfélaginu að viðbrögð forustumanna Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra vil ég nefna sérstaklega, voru þau að ekki væri sérstök ástæða til að taka mikið tillit til þessarar niðurstöðu, að mannréttindanefndin hefði jafnvel hæpna lögsögu í málinu og því bæri ekki að fara sérstaklega eftir þessu áliti, þá fannst okkur þingmönnum sem flytjum málið sérstök ástæða til koma með það hingað inn og fá það til umræðu í hv. Alþingi í formi þingsályktunartillögu þar sem þinginu, sem er löggjafarvald okkar, gæfist kostur á að lýsa afstöðu sinni til málsins með því að fjalla um það og væntanlega afgreiða það sem þingsályktun

Tíminn telur og dögunum fækkar sem okkur ber að svara því áliti sem við erum með fyrir framan okkur og enn bólar ekkert á því að ríkisstjórnin eða forustumenn í ríkisstjórninni ætli með neinum hætti að koma með málið inn í þingið. Ég held að samkvæmt vinnuskipulagi þingsins séu annaðhvort tólf eða þrettán fundardagar eftir í hv. Alþingi. Þar til viðbótar eru nefndadagar og annað en það eru aðeins þrettán fundardagar eftir. Málið hefði því þurft að vera komið fyrir þingið ef við ætlum að fjalla um það og vinna það skipulega og ég vænti þess, hæstv. forseti, að það fari ekki svo að meiri hlutinn á hv. Alþingi, 43 þingmenn, sjái til þess að málið náist ekki aftur inn til síðari umr. og afgreiðslu. Ég vænti þess að slíku gerræði verði ekki beitt. Það væri afar miður ef við ætlum að ljúka þinginu án þess að Alþingi taki afstöðu til þeirrar tillögu sem við fjöllum hér um og lýsi því yfir að það telji nauðsynlegt að breyta löggjöfinni hvað þetta varðar og við förum eftir áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það er meginmál, hæstv. forseti.

Ef það er svo að sjálfstæðismenn séu á kafi í vinnu við að undirbúa þetta þingmál í ráðuneytum og nefndum úti í bæ, sem við óbreyttir þingmenn höfum reyndar ekkert frétt af og ég held að samstarfsflokkurinn viti ekkert af heldur því sagt var að talið væri að menn væru að vinna í þessu máli, og vonandi er það rétt, en ef svo er væri nær að málið kæmi inn í þingið strax á morgun. Og ég mælist til þess við hæstv. forseta að hann beri þau skilaboð mín til fyrsta forseta Alþingis að séð verði til þess, ef málið er í vinnslu einhvers staðar úti í bæ, að það komi inn í þingið ekki seinna en á morgun ef við eigum að ræða það af skynsemi og á nægum tíma til að afgreiða það með þeim hætti sem okkur ber.