135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:52]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um stjórn fiskveiða sem tengist niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í tillögugreininni segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að hlíta beri niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007 …“

Jú, það er ágætt að leggja fram svona tillögu, virðulegur forseti, en af því að 1. flutningsmaður er í salnum, hv. þm. Jón Magnússon, þá langar aðeins áður en lengra er haldið að inna hann eftir því hvað þetta þýðir nákvæmlega, sérstaklega í því ljósi að niðurstaða nefndarinnar er óljós, þ.e. hún er óljós að því leyti að það er ekki skýrt hvað eigi að gera, hvernig eigi að bregðast við. (GAK: Það er okkar.) Já, það er væntanlega okkar verkefni að finna út úr því þó að okkur hafi ekki verið boðið að því borði, hv. þingmönnum eða öllum stjórnmálaflokkum. En ég vil samt inna hv. þm. Jón Magnússon eftir því hvað hv. þingmaður sjái fyrir sér, ef þetta yrði samþykkt í þinginu, að færi þá fram nákvæmlega. Líklega færi fram það ferli að menn settust niður og reyndu að finna út hvernig ætti að bregðast við. Mig langar samt að fá það fram af því að þegar þetta er lesið svona „Alþingi ályktar að hlíta beri niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna“ o.s.frv. þá er alveg ljóst að það verður að koma skýrt fram að það sé talsvert mikið og flókið mál að verða við niðurstöðunni af því að hún er talsvert óljós. Að þessu sögðu vil ég að það komi skýrt fram að ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að þurfa að bregðast við á einhvern hátt en ég hef ekki svarið við því á hvern hátt.

Ég hef kosið, virðulegur forseti, að leggja fram fyrirspurn af því að ég heyri að þingmenn eru almennt að kalla eftir viðbrögðum. Hvað er ríkisstjórnin að gera? Hvað er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera? Eru menn að gera eitthvað?

Hv. þm. Karl V. Matthíasson, varaformaður landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar, kom hér upp í pontu og það er alla vega ekki að heyra að forustumaður Samfylkingarinnar í þessum málaflokki skynji hvað verið er að vinna í málinu. Það er alveg ljóst, það komu ekki svör frá honum. Þetta mál er því væntanlega unnið mjög lokað en ég trúi ekki öðru en að verið sé að gera eitthvað í því. Ég hef því kosið að leggja fram fyrirspurn í þinginu sem ég vona að verði svarað bráðlega. Sú fyrirspurn er til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar er spurt hvort brugðist verði við álitinu fyrir tilsettan tíma sem er 11. júní. Þá rennur tímaglasið út. Það er kannski allt í lagi að bíða einhverja daga en það má ekki bíða mjög lengi með að klára niðurstöðuna eða segja hver verða viðbrögð okkar. Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra um það hvort hann muni æskja samstarfs við alla stjórnmálaflokka svo að sem best sátt náist um viðbrögð Íslands við áliti nefndarinnar. Ég sé ekki að verið sé að vinna neitt á þeim nótum, það er ekki leitað samstarfs við stjórnmálaflokkana. Ég spyr sjálfa mig líka: Er verið að ræða þetta mál á milli stjórnarflokkanna? Svör hv. þm. Karls V. Matthíassonar gefa ekki tilefni til að ætla að stjórnarflokkarnir séu nokkuð að tala um málið sín á milli í augnablikinu þótt einungis séu 44 dagar þangað til að við eigum að skila viðbrögðum.

Ég tel því ástæðu til að spyrja hv. þm. Karl V. Matthíasson, sem einmitt núna gekk inn í salinn, hvort hv. þingmaður, sem er talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum, telji eðlilegt í ljósi orða hans sem féllu fyrr í dag um að þetta sé stórt mál, mikilvægt mál, mikilvægt að bregðast við því, ekki þýði neitt annað: Er ekki eðlilegt að allir stjórnmálaflokkarnir komi að þeirri vinnu? Er eðlilegt að þetta mál sé bara unnið af stjórnarflokkunum og svo komi einhver tilkynning um hver niðurstaða þeirra varð? Er ekki eðlilegt að reyna að fá alla stjórnmálaflokkana að borðinu af því að málið er stórt, það er flókið, það eru mjög skiptar skoðanir um það, um kvótakerfið?

Við höfum verið þeirrar skoðunar, framsóknarmenn, að kvótakerfið hafi haft bæði kosti og galla. Við höfum reynt að sníða gallana af eftir því sem tími hefur gefist í málaflokknum og tilefni var til. Kvótakerfið hefur vissulega gefið okkur margt jákvætt, sjávarútvegurinn var á fallandi fæti um tíma og kvótakerfið hefur gefið okkur margt jákvætt en það eru líka gallar á því. Það voru gallar á því gagnvart þeim byggðum sem kvótinn var seldur frá og byggðin sat eftir kvótalítil eða kvótalaus, það er auðvitað galli á kerfinu. Á sama tíma og maður skoðar kostina eru þeir kostir líka gallar að vissu leyti hjá ákveðnum aðilum í samfélaginu.

Ég vil líka gera að umtalsefni niðurstöðu mannréttindanefndarinnar af því að eins og ég skil hana og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni þá telur meiri hluti nefndarinnar að mismununin sem felst í kvótakerfinu eins og nefndin túlkar það sé grundvölluð á ástæðum sem samsvari eignarstöðu. Að mínu mati er það alveg skýrt í lögum um stjórn fiskveiða og það kemur fram í 1. gr laganna að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar, það stendur þar. Þetta ákvæði höfum við ekki þreyst á að minnast á, framsóknarmenn, og við styðjum það. Við teljum að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar. Hins vegar höfum við líka sagt að við viljum fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá til þess að það vegi enn þyngra og sé enn skýrara, en það er þó í lögum um stjórn fiskveiða, í 1. gr. laganna.

Ef maður les athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins, þegar það var flutt á sínum tíma, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru langmikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar o.s.frv.“ — Og svo stendur neðar: — „Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskstofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim sem daglega starfa að fiskveiðum víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum má það ekki verða til þess að með því verði talin myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni.“

Þetta var alveg skýrt þegar gengið var frá 1. gr. á sínum tíma í þinginu, 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Hins vegar hafa margir sem vinna í greininni farið að túlka þetta sem einkaeign og að sumu leyti ber kerfið það með sér að maður skilur að menn fari að túlka það þannig af því að kvótinn gengur kaupum og sölum. Þegar einhver hefur keypt kvóta og það er kannski búið að selja hann nokkrum aðilum í gegnum tíðina fara menn auðvitað að líta á þetta eins og einkaeign. En það er alveg skýrt samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að svo er ekki. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar og í greinargerðinni er alveg skýrt að þetta á ekki að mynda óafturkræfan stjórnarskrárvarinn eignarhluta

Vegna þess að menn hafa verið að deila um þetta kusum við framsóknarmenn á síðasta kjörtímabili að leggja mikla áherslu á að gengið yrði frá þessu máli í stjórnarskránni og það var ákvæði um það í stjórnarsáttmálanum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vildu setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrá. Því miður tókst ekki að lenda því.

Ég hef verulegar áhyggjur af því vegna þess að hæstv. forsætisráðherra sagði í fyrra svari til mín í þinginu að hann teldi enga ástæðu til að fara í neina vinnu varðandi stjórnarskrána nema með áhlaupi svona rétt fyrir kosningar. Rétt fyrir næstu kosningar, sagði hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde. Á sama tíma segir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að endurskoða eigi stjórnarskrána, haldið verði áfram endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins, áhersla verði lögð á að leiða til lykta ágreining um þjóðareign á náttúruauðlindum í ljósi niðurstöðu sérnefndar um stjórnarskrármál um það atriði á síðasta þingi. Punktur. Ríkisstjórnin gefur það út að hún ætli að breyta stjórnarskránni og skoða sérstaklega ágreining um þjóðareign á náttúruauðlindum, á sjávarútvegsauðlindinni, en svo segir hæstv. forsætisráðherra á sama tíma: Nei, nei, við skulum ekki fara í þessa vinnu. Hæstv. utanríkisráðherra kallar eftir því að þessi vinna fari í gang en nefndin (Forseti hringir.) sem hefur verið í þessu starfi hefur ekki verið kölluð saman og hæstv. forsætisráðherra hefur engan áhuga á að gera það nema rétt fyrir næstu kosningar með svokölluðu áhlaupi sem eru fáránleg vinnubrögð að mínu mati og ég (Forseti hringir.) tel þetta allt of stórt mál til að fara þannig að.