135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:09]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir boðaði fyrirspurn sem hún vildi leggja fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra um hvað ríkisstjórnin aðhafðist eða hygðist aðhafast. Vil ég af því tilefni vekja athygli hv. þingmanns og annarra á því að ég held að það hafi verið 2. apríl síðastliðinn sem ég bar fram fyrirspurn um það til hvaða ráða ríkisstjórnin hygðist grípa varðandi þetta álit mannréttindanefndarinnar. Það liggja fyrir skýr svör og lágu fyrir hjá hæstv. ráðherra. Hann tók fram að hann tæki þetta mál mjög alvarlega og því mundi verða svarað með fullnægjandi hætti, það væri unnið að undirbúningi og síðast en ekki síst tilkynnti hann að hann mundi greina Alþingi frá því áður en hið endanlega álit yrði sent til mannréttindanefndarinnar að hvaða niðurstöðu ríkisstjórnin kemst í þessu máli þannig að þessar upplýsingar liggja allar fyrir.

Að því leyti liggur það líka fyrir að ráðherrann mun taka málið alvarlega og hann mun leggja það fyrir þingið þannig að sú tillaga sem hér er lögð fram er góðra gjalda verð. Hún var flutt í janúar eða febrúar áður en þessar upplýsingar lágu fyrir. En nú liggur það alveg skýrt fyrir hvernig með þetta mál verður farið.