135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:11]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá þessar upplýsingar. En það er kannski ekki mjög hátt á því risið að koma því hér á framfæri að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ætli að greina þinginu frá því til hvaða aðgerða verður gripið. Það er þvílíkt sjálfsagt mál að hæstv. ráðherra hlýtur að gera það. Við eigum að grípa til aðgerða eða koma okkar sjónarmiðum á framfæri fyrir 11. júní. Þinginu lýkur í lok maí þannig að ef menn ætla að standa nokkurn veginn við þann tímaramma þá hljóta viðbrögðin að sjá dagsins ljós einhvern tíma í lok maí áður en þingið fer heim. Ekki á ég von á því að þingið verði kallað sérstaklega saman út af þessu. Mér finnst það mjög ólíklegt.

Önnur leið væri að ríkisstjórnin mundi draga þetta í allt sumar og treysta á að það yrðu ekki gerðar neinar athugasemdir við það og mundi kynna þinginu niðurstöðu sína einhvern tíma í ágúst eða september kannski. Það væri ansi seint í rassinn gripið að mínu mati miðað við þær reglur sem gilda.

En það sem ég vil fá fram hjá hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og spyr um það í minni fyrirspurn er hvort hæstv. ráðherra ætli að reyna að ná samstarfi milli stjórnmálaflokka um þetta mál því tíminn er svo knappur sem er eftir. Ríkisstjórnin hefur boðað að gerð verði sérstök athugun á reynslunni á aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrif þess á þróun byggðar. Ríkisstjórnin ætlar að gera það og hún ætlar líka að endurskoða stjórnarskrána sérstaklega vegna þjóðareignarinnar á náttúruauðlindum. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haarde að hann telji — og auðvitað er það bara sjálfsagt að allir stjórnmálaflokkar sitji í nefnd sem er að endurskoða stjórnarskrána þannig að það vekur furðu hjá mér að ríkisstjórnin skuli vinna málið svona þröngt. Þetta er stórt og mikilvægt mál sem varðar hagsmuni þjóðarbúsins (Forseti hringir.) verulega miklu. En þetta er bara unnið einhvers staðar í fanginu á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og enginn veit hvað er að gerast.