135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:13]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi spurningar hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um það hvort ég telji að margir eigi að koma að endurskoðuninni um stjórn fiskveiða varðandi þetta álit þá er náttúrlega mjög gott ef víðtæk samstaða næst um þessi mál. Málið er í höndum ráðuneytisins og ráðuneytinu ber skylda og Stjórnarráðinu þá öllu til að svara áliti mannréttindanefndarinnar. Það er ekki Alþingis að gera það. Það er mín skoðun. Síðan kemur ríkisstjórnin með svarið sem að mínu áliti felur það í sér að lagt verði fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og þá mun þingið afgreiða það. En almennt séð er ég hlynntur því að í veigamiklum málum sé víðtækt samstarf í samfélaginu um hin og þessi mál hvort sem það víkur að þessu máli eða einhverjum öðrum mikilvægum málum eins og til dæmis bara öðrum auðlindamálum í sambandi við eignarhald á fallvötnum, vatni, heitu vatni í iðrum jarðar og allt hvað eina.

Núna er til stjórnarskrárnefnd. Í henni eru, held ég, þingmenn allra flokka og ég vona að þessi mál muni koma til umræðu þar um eignarhaldið á auðlindinni og að það verði undirstrikað allt saman með það.