135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:31]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ellert B. Schram talar um að meirihlutafylgi sé fyrir óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi. Nú er það alveg ljóst að við verðum að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu ef við ætlum að virða álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og það er ljóst að stjórnarandstaðan öll vill gera breytingar á álitinu og uppfylla þau skilyrði sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna setur okkur.

Þá er það spurningin um einn stjórnmálaflokk öðrum fremur, sem heitir Samfylkingin. Hvað vill hún? Ætlar hún að taka þátt í því að breyta lögum um stjórn fiskveiða til að uppfylla skilyrði í áliti mannréttindanefndarinnar eða ætlar hún að leyfa íhaldinu að ráða ferð? Hér er náttúrlega enginn frá íhaldinu í salnum og enginn í Sjálfstæðisflokknum hefur tekið þátt í þessari umræðu. Tveir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt orð í belg. Það er sorglegt að horfa upp á hvernig stjórnarliðar haga sér.

Ég segi: Auðvitað er verið að svíkja kosningaloforð. Auðvitað er Samfylkingin að svíkja kosningaloforð þegar hún lofar fyrir kosningar að beita sér fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og telur að það sé óréttlátt og allt það. Eftir kosningar er ekkert gert, ekki eitt einasta snitti. Þegar tveir flokkar mynda saman ríkisstjórn taka þeir venjulega tillit hvor til annars en ekki hefur verið stigið hænufet í rétta átt hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið af hálfu samfylkingarmanna.