135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:33]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur flutt þessa ræðu áður á þinginu og hann hefur flutt hana áður á fundum. Þetta er ágæt ræða og sjálfsagt hjá honum að halda áfram að flytja þessa ræðu. En það er alveg sama hvað maður talar hátt og hvað maður talar oft, staðreyndirnar liggja á borðinu og það er ekki þannig í stjórnmálum eða í mannlegum samskiptum að maður lemji einhvern til hlýðni. Maður hlýtur að reyna að vinna mál sitt með rökum og skynsemi og með þolinmæði.

Samfylkingin hefur ekki svikið nein kosningaloforð frekar en aðrir flokkar sem hafa sína stefnuskrá í kosningabaráttu en verða síðan að beygja af þegar þeir þurfa að mynda stjórn með öðrum flokkum, þá nást ekki öll mál fram. Það er öllum ljóst sem hafa einhvern snefil af þekkingu á pólitík og almennum venjulegum samskiptum. Þessi svikabrigsl eru ekki sanngjörn vegna þess að hv. þingmaður veit vel hver hugur okkar er, hann veit hver afstaða okkar er og verður að bera virðingu og taka tillit til þeirra staðreynda sem blasa við. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fram að þessu verið fáanlegur til þess að breyta eða beygja út af stefnu sinni, og ég get ekkert um það sagt. Það er ekki á mínu valdi enda er ég ekki í þeim flokki — ef ég væri í Frjálslynda flokknum gæti ég haldið ræður eins og hv. þingmaður gerir mjög vasklega aftur og aftur.