135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:36]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur kannski verið ljóður á ráði Samfylkingarinnar í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem fóru fram að kalla ekki til liðveislu hv. þingmanns og fá ráð hjá honum hvernig flokkurinn ætti að haga sér í samskiptum sínum við Sjálfstæðisflokkinn. Ég er þó ekki viss um að það hefði leitt til farsællar niðurstöðu.

Ég held að þetta mál sé miklu flóknara en svo að hægt sé að takast á við það með þeim hætti sem hér er verið að tala um. Það er líka nauðsynlegt að minna á það að slagurinn um fiskveiðistjórnarkerfið fór fram í kosningum 1999 og líka árið 2003. Þar voru átökin mjög hörð. Þau voru miklu minni í síðustu alþingiskosningum. Við verðum bara að horfast í augu við það. Samfylkingin lagði t.d. ekki eins mikla áherslu á breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi á síðasta ári og hún gerði fjórum árum þar á undan. Það er því ekki rétt, sem hér er fullyrt, að Samfylkingin hafi gefið loforð sem hún er nú að svíkja.