135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:39]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er verið að fjalla um mál sem snýr að því að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur kveðið upp úrskurð um að lög á Íslandi stangist á við almenn mannréttindi, borgaraleg og stjórnmálaleg. Þetta er kjarni málsins. Samfylkingin, og ég leyfi mér að fullyrða Sjálfstæðisflokkurinn líka, báðir ríkisstjórnarflokkarnir, vilja virða þetta álit og vilja standa vörð um mannréttindi og ég er sannfærður um að niðurstaða þessa máls, frá hverjum sem hún er runnin og hvernig sem að henni er staðið, mun verða á þá leið að tillit verði tekið til þess að við stöndum vörð um mannréttindi.