135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:41]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er nokkru við þetta að bæta? Á endanum getum við öll sameinast um það að standa vörð um mannréttindi. Að lokum þessarar viðureignar vil ég geta þess að ekkert vonleysi kemur fram í málflutningi mínum eða framgöngu minni í þessu máli. Ég hef fulla trú á því, eins og ég tók fram áðan, að menn virði mannréttindi og standi vörð um þau. Ég þarf varla að skýra það frekar og vona að ekki sé snúið út úr því.

Það er aftur annað mál hvernig eigi að gera það. Það getur vel verið að allir vilji breyta en hvernig vilja menn breyta? Ég er ekki viss um að mikil samstaða sé um það. Spurningin er þessi: Er gamli, góði Framsóknarflokkurinn tilbúinn til að kollvarpa fóstri sínu, einn tveir og þrír með einföldu jái eða neii, eins og margoft hefur verið óskað eftir hér og kallað eftir?