135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:05]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þakkir fyrir að gera okkur grein fyrir því hvað hann er vel ættaður, en það er í sjálfu sér ekki sérstakt innlegg í þetta mál. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er sá fyrsti í þessari umræðu sem kemur og segir að hann sé á móti þingsályktunartillögunni sem hér liggur fyrir. Hann er á móti henni, hann vill hafa kerfið óbreytt og hann vill ekki að farið sé að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Þar sem hann er eini talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu verð ég að líta þannig á að hann sé að túlka skoðun flokks síns í málinu. Þar með er spurningin: Er þetta sama skoðun og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur? Á að bregðast við með þeim hætti, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson heldur fram að eigi að gera, að það eigi akkúrat ekki að gera neitt?

Síðan segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson: Það er óumdeilt að niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er ekki bindandi. Er það óumdeilt? Ég hélt því fram í ræðustól hér áðan, þegar ég mælti fyrir þingsályktunartillögunni, að ég teldi að þetta væri bindandi að þjóðarrétti. Ég gerði grein fyrir því að m.a. fyrrverandi forseti Hæstaréttar, Magnús Thoroddsen, hefði tjáð sig afgerandi með þeim hætti að þetta væri bindandi að þjóðarrétti.

Í Stjórnartíðindum , C-deild, frá 1979 er vísað til þeirrar þingsályktunartillögu sem lögð var fram þegar við fullgiltum þann samning sem hér er um að ræða. Það er nú einu sinni þannig að frjáls og fullvalda ríki hafa með samskiptum við aðrar þjóðir kosið að deila fullveldi sínu með einum eða öðrum hætti. Það gerðum við þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar, það gerðum við þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið og það gerðum við þegar við samþykktum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta var eitt af því (Forseti hringir.) sem við deildum varðandi það, við gengumst undir það að hlíta niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.