135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:11]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vill að mannréttindi séu virt og við erum sammála um það. Við erum hins vegar ósammála um það hvort núverandi fiskveiðistjórnarkerfi feli í sér mannréttindabrot eða ekki, eins og við erum eflaust ósammála um ýmsar túlkanir á mannréttindaákvæðum t.d. íslensku stjórnarskrárinnar. (Gripið fram í: Mannréttindi eru algild.) Já, já, mannréttindi eru algild.

Mig langar til að benda hv. þingmanni á að u.þ.b. 100 þjóðir hafa fullgilt umræddan samning. 75 þeirra hafa fengið á sig álit sem eru sambærileg því sem við ræðum hér. Það þýðir ekki að öll þessi ríki fari fram með mannréttindabrotum, alls ekki.

Það er allt í lagi að ræða um fiskveiðistjórnarkerfi okkar (Forseti hringir.) en sé maður ósammála niðurstöðu nefndarinnar má ekki halda því fram að maður sé fylgjandi mannréttindabrotum eins og hér hefur verið haldið fram.