135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður ekki greina það rétt um hvað málið fjallar. Það fjallar um framkvæmd á ákveðnum grunnþáttum í fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Mannréttindanefndin er í sjálfu sér ekki að kveða upp úrskurð um það hvort beita megi kvótakerfi eða ekki, heldur ákveðnum ráðstöfunum þess.

Í ágætri grein Magnúsar Thoroddsens segir, með leyfi forseta:

„Þeir sem upphaflega hafi fengið úthlutað veiðiheimildum og nýttu þær eigi, hafi getað selt þær eða leigt á markaðsverði í stað þess að skila þeim aftur til ríkisins til úthlutunar til nýrra veiðiréttarhafa í samræmi við sanngjarna og réttláta mælikvarða. Íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á, að þessi úthlutunarmáti á veiðiréttarheimildum fullnægi þeim kröfum er gera verði um sanngirni.“ — Þess vegna er álit mannréttindanefndarinnar á þennan veg.

Fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við hefur heldur ekki náð markmiðum sínum ef út í það er farið. Hver er 1. gr. þar? Jú, að vernda fiskstofnana, byggja þá upp. Svo hrapallega hefur tekist til að sumir hverjir eru í verra ástandi en nokkurn tíma áður að mati vísindamanna. Fiskveiðistjórnarkerfið átti líka að efla byggð og treysta atvinnu í landinu. Það hefur ekki heldur náðst þannig að ekki er nú hægt að hæla því.

Ég spyr hv. þingmann: Er hægt að ganga fram í þeirri blindu trú, eins og hv. þingmaður gerir, að útfærsla kvótakerfisins sé svo algóð eins og hún er núna að ekki megi einu sinni taka mark á og til alvarlegrar meðferðar álit mannréttindanefndarinnar (Forseti hringir.) á tilgreindum ágalla þess sem snertir að hennar mati mannréttindi?