135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:14]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aldrei sagt að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið sé algott og ég hef ekki útilokað að breytingar á því geti ekki leitt til betri afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna og sjávarbyggðanna í landinu. Ég held að eflaust sé hægt að gera ýmsar breytingar á kvótakerfinu sem gætu orðið til góðs.

Hv. þingmaður nefndi úthlutunina í upphafi eins og hún var á árunum 1983–1984 og hv. þm. Grétar Mar Jónsson nefndi hana líka, að hún hefði verið ósanngjörn. Það má vel halda því fram að öðruvísi hefði mátt standa að úthlutun aflaheimilda þegar kvótakerfinu var komið á. En síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í ákveðnu dægurlagi, og frá því að kvótanum var úthlutað í upphafi hefur hann skipt um hendur. Ég hygg að 80–90% af upphaflegum aflaheimildum hafi skipt um hendur í frjálsum viðskiptum. Mér finnst í ljósi þess ekki við hæfi eða vera tilefni til að ræða það í dag hvernig kvótakerfinu var komið á fyrir u.þ.b. 20 árum.

Mig langar hins vegar til þess að spyrja hv. þingmann að því, af því að hann tekur nú þátt í þessari umræðu, hvort hann telji að þegar við Íslendingar gengum í Sameinuðu þjóðirnar og gerðumst aðilar að því bandalagi höfum við framselt sjálfsákvörðunarrétt okkar með þeim hætti að álit eins og það sem við fjöllum hér um sé bindandi fyrir okkur að þjóðarétti og Alþingi Íslendinga, löggjafarvaldið, (Forseti hringir.) þurfi að beygja sig í einu og öllu undir það álit og efni þess.