135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason nuddar mér vaxandi aldri um nasir og segir að ég sé farinn að gleyma. Það getur vel verið að minni mitt sé orðið hverfult. Ég man hins vegar allar tillögur VG varðandi breytingar á stjórnkerfi fiskveiða og ég fullyrði að engin þeirra breytinga né heldur sú stefna sem VG bar fram fyrir síðustu kosningar mundi duga til þess að fullnægja þeim úrskurði sem féll hjá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna spurði ég hv. þingmann og gekk eftir því hérna áðan: Hvernig vill VG gera það? Hv. þingmaður kom og hélt eina af sínum snjöllu ræðum. Um hvað? Um einhverja nefnd, um einhverja stefnu sem hv. þingmaður ætlar að leggja í púkkið. Bíddu nú við. Hefur VG stefnu í þessu eða hefur það hana ekki? Það er punctum saliens í þessu máli. Og það kemur í ljós að VG hefur ekki stefnu í þessu. Þeir ætla að búa til nefnd. Nefnd til hvers? Og hvað ætla þeir að leggja í púkkið? Er til of mikils mælst þegar hv. þingmaður kemur hér upp og lemur alla eins og harðfisk yfir því að ekki sé búið að ganga frá svari við því hvernig eigi að verða við þessum úrskurði að hann segi sína skoðun á því? Nei, herra forseti. Það er ekki til of mikils mælst. Það er ekki hörð krafa.

Hv. þingmaður spyr mig síðan sem þingmann og ráðherra hvort ég telji að það eigi að verða við úrskurði mannréttindanefndarinnar. Svarið er alveg afdráttarlaust já. Ég sagði í fyrri ræðu minni í dag að margar leiðir séu til þess að verða við því. Sumar ganga langt. Sumar eru einhver kattarþvottur. Það er alveg klárt að það eru margar leiðir.

Ef hv. þingmaður hefði borið gæfu til þess að styðja mína stefnu eindregnar hér á árum fyrr í staðinn fyrir að fara alltaf eins og köttur í kringum heitan graut þá hefðum við kannski getað sameinast um það á þeim tíma að mynda ríkisstjórn um að breyta stjórnkerfi fiskveiða í anda (Forseti hringir.) fyrningarstefnu og þá hefðum við ekki fengið þennan dóm á okkur.