135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:05]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hefði hæstv. iðnaðarráðherra fylgst hér með umræðunni í dag hefði hann fengið svör við ýmsum af þeim spurningum sem hann varpar hér fram. (Gripið fram í.) Já, já, meira að segja þeim staðhæfingum. Meðal annars vísaði ég til greinar Þorgeirs Örlygssonar sem skiptir máli varðandi þessa tillögu.

Ég sagði ekki, hæstv. iðnaðarráðherra, að ég hafi einhverja ofurtrú á lögfræðiþekkingu Sigurðar Kára Kristjánssonar þó að ég telji hann hinn ágætasta lögmann. (Gripið fram í.) Hitt er annað mál að hann er eini þingmaðurinn sem hefur lýst því yfir að hann sé andvígur þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og sagt að álit mannréttindanefndarinnar sé ekki bindandi að þjóðarétti. Það er þess vegna sem ég tók þannig til máls eins og ég gerði áðan.

Varðandi lögfræði hæstv. iðnaðarráðherra hef ég ekki gert lítið úr þeirri lögfræðiþekkingu því að hann hefur setið svo lengi á þingi að ég hygg að hann hafi heyjað sér töluverðan fróðleik í þeim málum. Það sæmir honum illa að vera með þetta lítillæti. (Gripið fram í.) Ja, ég hef nú ekki orðið var við það fyrr, þetta er kannski nýbreytni.

Varðandi það með hvaða hætti breyta á fiskveiðistjórnarkerfinu þá hafa stjórnarandstöðuflokkarnir ítrekað reynt að gera ákveðið samkomulag og komust reyndar að samkomulagi á sínum tíma. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram skýra, ótvíræða stefnu um það með hvaða hætti eigi að fara þessa leið. Höfuðatriðið er jafnræði, réttindi, þannig að allir borgarar þessa þjóðfélags fái að sitja við sama borð og hafi full atvinnuréttindi.