135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:18]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur tvisvar sinnum í dag metið til fjár kvótann. Mér finnst ekki rétt að vera tala þannig. Íslenska auðlindin er ómetanleg og það er ekkert verið að tala um þetta í einhverjum krónum og aurum. Þetta er ómetanleg eign sem er bara eign þjóðarinnar og ég vona að sú stjórnarskrárnefnd sem er nú að störfum taki þetta inn í sína vinnu og að það verði lögð rík áhersla á það, þetta með auðlindina. (GMJ: ... að leyfa braskið.) Grundvallaratriðið er í mínum huga, herra forseti, að við snúum ofan af kerfinu þannig að við komum að þeim stað þar sem það verði réttlátt og sanngjarnt fyrir alla þegna landsins. Það er grundvallaratriði. Svo geta menn náttúrlega, eins og farið er að heyrast hér, farið að deila um það á hversu marga vegu það eigi að gera þetta. Best er að byrja á smábátunum. Eigum við ekki að byrja á togurunum? Eigum við ekki að fara að banna flottroll? Eigum við ekki að banna snurvoð og svo framvegis, upphefja línutvöföldun og ég veit ekki hvað og hvað, sem er nefnt í þessari umræðu? Lykilatriðið er að komast til þess staðar sem við verðum að komast, þ.e. að það sé réttlátt samfélag og réttlátt þjóðfélag sem veitir þegnunum jafnan rétt.

Þó að LÍÚ hafi einhvern tímann komið að því og lagt til við ráðamenn að þetta kerfi ætti að vera svona eða hinsegin þá eru þeir í raun ekki ábyrgir fyrir því sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt. Það er bara svo einfalt. Margir koma til þingmanna og biðja um eitt og annað. En þeir eru ekkert ábyrgir fyrir því sem þeir biðja um. Það eru þingmennirnir og það er Alþingi sem er ábyrgt fyrir (Forseti hringir.) sínum gerðum.