135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:35]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, við framsóknarmenn höfum lagt til að einhvers konar þjóðarsátt náist og að stjórnvöld kalli að alla aðila þingflokkanna til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta er þó tillaga vegna þess að það er akkúrat ekkert að gerast í málinu. Tíminn er að renna út og ef ekkert verður gert rennum við einfaldlega á rassinn með þetta eins og svo margt annað hjá núverandi ríkisstjórn.

Ég vil líka benda á að við höfum lagt fram tillögu til frumvarps til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, með síðari breytingum.

Þar segir í 1. gr.:

„Við lögin bætist ný grein sem verður 79. gr. laganna og orðast svo: Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.“

Ef Samfylkingin lítur þannig á að þjóðarsáttarleiðin sé fullreynd er a.m.k. leið hér til þess að koma í veg fyrir að við fáum aftur á okkur álit eins og við fengum frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Ég held að Samfylkingin ætti bara að skoða þessar tillögur í ró og næði. Ég ætla mér ekki að fara út í einhverjar umræður um kvótakerfið enda snýst þessi tillaga í sjálfu sér ekki um það, en ítreka að við erum hlynntir því að hér sé kerfi. Kvótakerfið hefur ýmsa galla en það hefur líka (Forseti hringir.) ýmsa kosti.