135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:38]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, kvótakerfið hefur ýmsa kosti og ýmsa galla — ég veit reyndar ekki alveg hverjir kostirnir eru við það, en það er önnur saga. Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn í 16 ár eða 12, var það í mörg ár, og þeim tókst ekki að koma þessu inn í stjórnarskrána enda fór þetta ekki inn í stefnuskrá þeirra fyrr en líklega fyrir fjórum árum, þá var farið að tala um þetta.

Ber mér að skilja tillögu framsóknarmanna á þann veg að nytjastofnar sjávar séu í þjóðareign? Felur tillagan það í sér eða gerir tillagan ráð fyrir því að nú þegar hafi myndast eignarhald í sjávarútveginum þannig að ekki megi innkalla kvóta frá þeim útgerðum sem hafa kvóta í dag? Felur tillagan þetta í sér eða felur hún það í sér að fiskstofnarnir og auðlindir almennt, sjávar og lands, séu sameign þjóðarinnar? Það væri gott að fá svar við því.