135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:42]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er dálítið skondið þegar Framsóknarflokkurinn er farinn að tala um að þeir vilji gera stjórnarskrárbreytingu og setja inn í lögin að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Það er nú hreint og beint þannig að Framsókn kom þessu bannsetta kvótakerfi á á sínum tíma og vildi í upphafi að þetta yrði einkaeign en því var forðað. Svo vildi til að Alþýðuflokkurinn sálugi kom því inn að orðalagið væri á þann veg að fiskurinn í sjónum væri sameign þjóðarinnar. Það er nú kannski þess vegna sem við getum verið að tala um einhverjar breytingar í dag á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þetta er sameign þjóðarinnar þrátt fyrir að LÍÚ og útgerðarmenn, smærri bátar líka, hafi þennan nýtingarrétt og séu að braska með nýtingarréttinn. Þetta er oft misskilið af fólki og almenningi og af þingmönnum. Þeir eru ekki betur að sér en það að þeir rugla oft saman nýtingarréttinum sem þeir eru að leigja, veðsetja eða selja. Það er það sem þetta brask gengur út á, það snýst allt um nýtingarréttinn á auðlindinni.

Það stendur fallegum stöfum í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar, en handhafar veiðiheimilda á hverjum tíma eru með nýtingarréttinn, geta braskað með hann. Ég vil að lokum spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson: Lítið þið þannig á að kvótinn í dag sé eign þeirra sem hafa hann?