135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:48]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Í stutta stund hélt ég að ræða hv. þm. Grétars Mars Jónssonar mundi bara vera skammarræða út í Framsóknarflokkinn en hann lauk ræðu sinni á að fagna því að (Gripið fram í.) formaður Framsóknarflokksins sé reiðubúinn að skoða breytingar. Um það hefur málflutningur minn og annarra framsóknarmanna snúist í dag.

Jú, ég sagði að þetta væri nauðsynleg ályktun og að við framsóknarmenn hefðum stutt kerfið. Vissulega hafa breytingarnar kannski ekki allar heppnast nægilega vel en lengi má reyna og við verðum að hafa einhvers konar kerfi. Ég er svolítið hissa á því að enn sé verið að halda því fram að færeyska leiðin sé einhvers konar útgönguleið. Hún hefur ekki komið neitt sérstaklega vel út í Færeyjum, síður en svo. Enda sagði hv. þm. Grétar Mar Jónsson að vissulega þyrfti að gera á því breytingar. Hvaða breytingar? Það þarf að koma fram — að standa hér í pontu (GMJ: Lestu stefnuskrá Frjálslynda flokksins.) og tala um að kvótakerfið sé ómögulegt o.s.frv. en koma svo ekki með neinar haldbærar breytingar nema þá breytt færeyskt kerfi. (Gripið fram í.)

Að lokum vil ég segja að við framsóknarmenn erum einmitt með tillögur. Við erum með tillögur um breytingu á stjórnarskránni sem mundi koma í veg fyrir þetta álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem taldi einfaldlega að þarna hefði myndast eignarréttur sem við teljum að við verðum þá á einhvern hátt (Forseti hringir.) að koma í veg fyrir.