135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

frumvarp um losun gróðurhúsalofttegunda.

[13:33]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þann 19. nóvember sl. beindi ég fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um það hvort fyrir lægi stuðningur ríkisstjórnarinnar við uppbyggingu álvers við Bakka á Húsavík og hvort ríkisstjórnin hygðist beita sér fyrir því að þau áform gætu orðið að veruleika með því að vinna að því að afla fyrirtækinu útblásturslosunarheimilda. Hæstv. iðnaðarráðherra svaraði fyrirspurninni með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég hef viðrað það, bæði við aðra ráðherra og einnig í ríkisstjórninni, að það sé tryggt að þær heimildir sem ríkisstjórn Íslands hefur aflað og hefur sérstaklega til ráðstöfunar vegna stórframkvæmda af þessu tagi einskorðist ekki bara við suðvesturhornið.“

Enn fremur sagði hæstv. ráðherra í svari sínu, með leyfi forseta:

„Ég vil segja hins vegar alveg skýrt að ég er þeirrar skoðunar sem byggðamálaráðherra að ríkisstjórnin eigi að beita sér fyrir breytingu á lögum um losunarheimildir sem tryggja að þær dreifist jafnt á það sem við köllum hið hefðbundna þéttbýli og líka dreifbýlið.“

Ég vil í ljósi þess að tæpir sex mánuðir eru liðnir síðan þessi orðaskipti áttu sér stað, og nú fer að styttast sá tími sem ríkisstjórnin hefur til að leggja fram mál á þingi, í þeim tilgangi að þau verði afgreidd sem lög fyrir vorið, spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort þess sé að vænta að fljótlega komi fram frumvarp um breytingu á lögum um losun gróðurhúsalofttegunda sem mætir þeim sjónarmiðum sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur sett fram í þinginu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.