135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

frumvarp um losun gróðurhúsalofttegunda.

[13:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Málið snýst um það, eins og fram kom í máli hæstv. iðnaðarráðherra á sínum tíma, að breyta þarf lögunum um gróðurhúsalofttegundir og úthlutun þeirra. Eins og gildandi lög eru er ekki hægt að koma við þessum sjónarmiðum byggðamálaráðherrans um að tiltækum heimildum verði ráðstafað jafnt á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu.

Mér þykir miður, virðulegi forseti, að það komi fram á þessu stigi að ekki er einhugur í ríkisstjórninni um þetta sjónarmið. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að endurskoða afstöðu sína eða leitast við að styrkja sannfæringu sína í þessu máli þannig að hún samræmist afstöðu byggðamálaráðherrans og fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar.