135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

lengd viðvera í grunnskóla.

[13:48]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir að taka upp þetta mál sem brennur mjög oft á okkur barnafjölskyldum sem erum með það ung börn að þau þurfa að vera í þessari lengdu viðveru eða inni á frístundaheimilum eftir skóla.

Gott og vel. Þannig að ég svari því strax, ég mun ekki beita mér fyrir því að lögunum sjálfum verði breytt og ég segi þetta sérstaklega í ljósi sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga. Hins vegar er alveg ljóst að það er hægt að setja þetta í reglugerð og það er hægt að beita sér fyrir því að setja þetta í reglur en það verður að gerast í samvinnu og í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga sem hefur alla tíð í málflutningi sínum lagt ríka áherslu á að fá sjálfsstjórn sína og halda henni þegar kemur að uppbyggingu grunnskólamála.

Hins vegar vil ég líka ítreka að málin eru með misjöfnum hætti. Sum sveitarfélög standa sig gríðarlega vel á þessu sviði og eru með öflugt og blómlegt starf, samfelldan skóladag og fleira, hvort sem það er hér á höfuðborgarsvæðinu eða víða úti á landi. Sveitarfélögin standa sig misvel.

Ég held að það sé ekki rétt að við förum í það að miðstýra þessu með löggjöf, ég er í rauninni sannfærð um það. Ég held að við fáum ekki mikið út úr því. Hins vegar er ég sannfærð um að við getum leitt þessi mál í betri farveg hjá þeim sveitarfélögum sem eru ekki með aðbúnaðinn algjörlega í lagi, þ.e. ef við förum í gott samstarf við þá.

Þess vegna þakka ég hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir þessa fyrirspurn og ítreka það sem ég hef sagt, að sjálfsögðu munum við skoða þetta í samvinnu við Heimili og skóla og Samband íslenskra sveitarfélaga.