135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

endurskoðun forsendna fjárlaga.

[13:51]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þann 20. febrúar sl. sendi þingflokkur Framsóknarflokksins bréf til Seðlabankans þar sem óskað var svara við nokkrum spurningum er snerta efnahagsmál þjóðarinnar enda veitir svo sannarlega ekki af.

Þann 18. apríl sl. svaraði Seðlabankinn spurningum okkar framsóknarmanna er vörðuðu efnahagsmál þjóðarinnar þar sem m.a. kom fram það álit Seðlabankans að ríkisstjórnin hefði við fjárlagagerð vegna ársins 2008 ekki gætt nægjanlegs aðhalds til að tryggja og varðveita stöðugleikann í íslensku samfélagi.

Útgjaldarammi fjárlaga hækkaði þá um 20%. Við framsóknarmenn vöruðum mjög mikið við því í því ferli sem þá fór fram og hvöttum menn til að ganga hægt um gleðinnar dyr, sögðum að gæta ætti aðhalds í fjármálum hins opinbera á þeim tímum sem nú væru uppi. Hið sama sagði Seðlabankinn þá, sama sögðu OECD, greiningardeildir bankanna og aðilar vinnumarkaðarins. En ríkisstjórnin ákvað að hlusta ekki á þessi aðvörunarorð og gaf því tóninn að þeim óstöðugleika sem nú er uppi í samfélaginu. Staðreyndin er sú að verðbólga hefur ekki verið meiri í 18 ár en nú er. Þó gerði ríkisstjórnin ráð fyrir því að verðbólga á árinu 2008 yrði 3,3%. Hún er miklu hærri í dag, er í raun tveggja stafa tala. Það er alveg ljóst að þær forsendur sem ríkisstjórnin gaf sér við fjárlagagerð vegna ársins 2008 eru brostnar, mölbrotnar.

Og það var athyglisvert hér í gær þegar hv. þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar Kristján Þór Júlíusson kom upp, gaf loksins eftir og tók undir með okkur stjórnarandstæðingum um að það ætti að fara í þá vinnu að endurskoða forsendur fjárlaga.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að mölbrotnar forsendur fjárlaga verði nú loksins endurskoðaðar (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að fá einhverja raunsanna mynd af stöðu fjárlaga ríkisins (Forseti hringir.) fyrir árið 2008.