135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[14:01]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur áður spurt mig í þessa veru á hinu háa Alþingi í vetur. Hann vísar hér í tíðindi síðustu viku um að vísbendingar séu um að Íslendingar geti jafnvel ekki staðið við skuldbindingar sínar innan Kyoto-tímabilsins 2008–2012, sem eins og við öll vitum eru nokkuð rýmri en þær skuldbindingar sem aðrir tóku sér á herðar, við fengum sem sagt plús 10% í almennri losun og svo hið íslenska ákvæði.

Flestir héldu og hafa haldið að ekki yrði mjög erfitt fyrir Íslendinga, miðað við þann orkubúskap sem við höfum, að standa við gerða samninga í þessu efni. Mér þykja þessar vísbendingar alvarlegar og hef því beðið um nýja losunarspá á gróðurhúsalofttegundum þannig að við getum betur séð hvert stefnir nú þegar við erum komin inn á fyrsta skuldbindingartímabilið og komin í samninga um hið næsta.

Hv. þingmaður ræðir hagsmuni mannkyns, um það snýst allt þetta mál, það er það sem verið er að ræða í samningaviðræðum um loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Ég er nýkomin af fundi umhverfisráðherra OECD-ríkjanna. Þar voru líka ráðherrar annarra landa, m.a. frá Kína, Brasilíu, Suður-Afríku og fleiri löndum, sem ræddu mestmegnis um loftslagsmálin við okkur. Þar eru menn á einu máli og gildir þá einu úr hvaða stjórnmálaflokki þeir koma, um það að mestu skipti (Forseti hringir.) að ná a.m.k. helmingsminnkun í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050.