135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[14:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við tökum eftir því að einn hæstv. ráðherra vantar á ráðherrabekkinn af þeim ráðherrum sem auglýst var að yrðu hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma, þ.e. hæstv. heilbrigðisráðherra. Við erum tveir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem höfðum hugsað okkur að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra. Nú er það ljóst að hann sýnir sig ekki hér í þinginu. Mér finnst það ámælisvert.

Mér finnst rétt að benda á það hér að ráðherrar hafa með nýjum þingskapalögum fengið miklu rýmri heimildir þingsins til þess að mæta hér eða ekki. Við verðum vör við að hæstv. ráðherrar mæta sjaldnar í upphafi þingfunda en áður en þingskapalögum var breytt. Ég vek því athygli á lausung sem komin er í þinghaldið hvað þetta varðar og auglýsi eftir viðveru hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég vona að hann hafi a.m.k. fullnægjandi skýringar fyrir því að hunsa þá þingmenn sem vilja bera upp við hann fyrirspurn. Mér finnst háttalag af þessu tagi lýsa lítilsvirðingu í garð hins háa Alþingis.