135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[14:13]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er óvænt að við skulum lenda í umræðum um breytingar á þingsköpum en gott og vel, það geta verið rök fyrir því að ræða þau einmitt núna. Komið hefur fram talsverð gagnrýni á fyrirkomulagið eins og það er núna en ég vil verja það fyrirkomulag sem við höfum ákveðið að taka upp. Það er skoðun mín að nýju þingsköpin skapi miklu meira svigrúm en við höfum séð áður fyrir þingmenn til að taka þátt í umræðum í upphafi hvers einasta þingfundar í hálftíma um málefni dagsins, annaðhvort í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra eða í umræðum um störf þingsins. Ráðherrarnir koma hingað tvisvar í viku fimm í einu í staðinn fyrir að hafa þetta á hálfsmánaðarfresti eins og áður var. Ég sé því ekki betur en ráðherrarnir séu aðgengilegri í dag en þeir voru áður.

Ég tel því að þingið hafi mikinn sóma af nýjum þingsköpum og að almenningur hafi líka fundið fyrir jákvæðum breytingum. Nú getur almenningur í upphafi hvers einasta fundar (Forseti hringir.) séð í hálftíma hvað er mikilvægast á dagskrá í þjóðmálaumræðunni.