135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[14:16]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vildi láta það koma fram, af því að þessi umræða er farin af stað, að ég var einn af þeim sem hafði lagt fram óundirbúna fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra og reiknaði með því að sú fyrirspurn yrði tekin fyrir milli klukkan hálftvö og tvö. Mér hefur borist tilkynning um að ráðherrann sé önnum kafinn og við getum öll ímyndað okkur út af hverju það er, mjög alvarlegu ástandi á Landspítalanum. Mér finnst það fullkomlega lögmæt afsökun og ástæða fyrir hann að taka það mál fyrir í staðinn fyrir að sitja hér og svara fyrirspurnum sem geta beðið, áreiðanlega fleiri fyrirspurnir en bara mín.