135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

ríkisábyrgð til handa deCODE Genetics Inc.

570. mál
[14:25]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þuríði Backman þessa fyrirspurn og hæstv. fjármálaráðherra svarið. Hæstv. ráðherra tilkynnti þinginu að forsendur fyrir því að veita ríkisábyrgð til handa deCODE Genetics Inc. séu brostnar.

Af mörgum furðulegum lögum sem Alþingi hefur samþykkt hygg ég að umrædd lög séu í hópi þeirra allra furðulegustu. Þingmenn markaðshyggjuflokkanna beittu sér fyrir því að hafa afskipti af markaðnum með mjög óeðlilegum hætti. Aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins stóð í fæturna og greiddi atkvæði gegn þessu ruglfrumvarpi, að mínu mati, um ríkisábyrgð til handa einkafyrirtæki, það var hv. þm. Pétur Blöndal.

Nú blasir þessi spurning við okkur: Á að grípa til ákveðinnar ríkisábyrgðar til handa einkafyrirtækjum vegna þess að staðan er bág? Á að beita einhverjum svipuðum aðferðum varðandi bankana í landinu sem hingað til hafa sagt að okkur komi ofurlaun þeirra ekki við (Forseti hringir.) af því að um væri að ræða sjálfstæð, frjáls fyrirtæki?