135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest.

568. mál
[14:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Er í sjálfu sér undarlegt að almenningi hafi blöskrað þessar tíðu utanlandsferðir ráðherranna einmitt nú þegar við stöndum frammi fyrir efnahagsvanda sem er reyndar að stórum hluta tilkominn vegna stjórnvaldsaðgerða sömu ráðherra?

Það er kannski ekki það sem rekur mig til að koma hér upp heldur þau orð hæstv. forsætisráðherra, sem einnig hefur verið fjármálaráðherra og ætti að kunna lögin um fjárreiður ríkisins, að kostnaðurinn við ferðina verði ekki gefinn upp, það sé heiðursmannasamkomulag gagnvart þeim aðila sem leigði þeim vélina að gefa hann ekki upp. Hæstv. ráðherra hefði átt að vita að það er lögbrot. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa áttað sig á því en (Forseti hringir.) mér blöskraði það dómgreindarleysi hans, og hann er fyrrv. fjármálaráðherra, að ekki þyrfti að gefa kostnaðinn upp, frú forseti.