135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest.

568. mál
[14:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er nú enginn nýr stíll, þetta var bara aðferð til að komast á milli staða með hagkvæmum hætti. Notuð að þessu sinni til að fara þessa leið alveg eins og menn leigja sér stundum flugvélar hér innan lands til að komast leiðar sinnar hvort sem það er til Vestmannaeyja eða annarra staða. Þetta er útreikningsdæmi. Vel má vera að hv. þingmaður hafi mestar áhyggjur af því að þetta hafi verið PR-klúður, ég skal ekki taka fyrir það. Mér heyrist nú að þingmaðurinn sé býsna ánægður með að hafa fengið slíkt PR-klúður til að hamra á hér í þinginu. En það breytir ekki efni málsins sem er náttúrlega það að leitað var hagkvæmrar leiðar til að koma þessum hópi fólks, sem átti að vera tíu manns, örugglega fram og til baka á þennan mikilvæga fund sem var. Svo blandast það inn í þetta að hv. þingmaður er andvígur því að íslenskir ráðamenn sæki NATO-fundi, það litar málflutning þingmannsins að þetta skuli hafa verið fundur af því taginu en ekki einhver annar fundur.

Upphaflega áttu tíu manns að fara þessa ferð, það urðu átta, fjögur sæti voru til ráðstöfunar þar fyrir utan. Við buðum fjórum fjölmiðlum að hagnýta sér það, þrír þáðu það. Fyrir vikið varð umfjöllun um fundinn, held ég, miklu meiri og skilmerkilegri en ella hefði verið. Ég tel að það hafi líka verið ótvíræður kostur fyrir íslenskan almenning að hafa getað fengið milliliðalausar fréttir af umræddum fundi.

Ég hef setið í ríkisstjórn í tíu ár, hef ekki áður leigt mér flugvél af þessu tagi til að komast á milli staða en í þessu tilfelli þótti það skynsamlegt miðað við hvað hópurinn var stór og miðað við hvernig stóð á ferðum þarna og ýmsum öðrum þáttum sem raktir hafa verið. En auðvitað er það almenna reglan, eins og á að vera, að við öll í þessum sal ferðumst með venjulegu áætlunarflugi.