135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

Grænlandssjóður.

569. mál
[14:47]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Í lögum um Grænlandssjóð segir að ríkissjóður skuli leggja í sjóðinn á árunum 1981 og 1982 125 millj. kr. gamlar, fyrir myntbreytingu sem sé, hvort ár sem stofnfé. Árið 1981 var ígildi umræddrar fjárhæðar, sem þá var 1.250 þús. danskar krónur, greitt úr ríkissjóði. Nú nýverið hefur komið í ljós, og stjórn sjóðsins hefur upplýst forsætisráðuneytið um það, að síðari hluti framlagsins var aldrei greiddur. Mér þykir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fundvís á gamlar vanefndir stjórnvalda að hafa aflað upplýsinga um þetta, sem hann hefur greinilega verið búinn að gera. Samkvæmt upplýsingum frá stjórn sjóðsins hafa engin framlög önnur en stofnfjárgreiðslan borist í sjóðinn og þar með er 2. lið fyrirspurnarinnar svarað.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra sé tilbúinn til að efla starfsemi Grænlandssjóðs með sérstökum framlögum úr ríkissjóði. Ég get ekki svarað því öðruvísi en svo að mér finnst eðlilegt að taka það til athugunar í ljósi þess að á sínum tíma hafi hugsanlega verið um vanefndir að ræða. En ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði í lok fyrirspurnar sinnar: Það er sjálfsagt, eðlilegt og rétt að reyna að efla og styrkja sambandið við Grænland eins og við mögulega getum, hvort sem Grænlandssjóðurinn er besti farvegurinn til þess eða ekki. Hann hefur hins vegar ekki úr miklum peningum að spila eins og þingmaður nefndi, ráðstöfunarfé sjóðsins í ár var 1,1 millj. kr. og umsóknir um styrki voru 12. Var samþykkt að styrkja fjögur verkefni, að vísu ágæt en þau hefðu auðvitað gjarnan mátt vera fleiri ef meira fé hefði verið til ráðstöfunar.

Þetta er sem sagt mál sem við þurfum að skoða nú þegar upplýst er um þetta, en ég hygg að það sé aðeins einn þingmaður sem var á Alþingi þegar lögin um Grænlandssjóð voru sett, hæstv. núverandi félags- og tryggingamálaráðherra, þannig að ekki er hægt að draga marga til ábyrgðar fyrir vanefndir í þessu.