135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða fer hér fram en vil aðeins út af orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og ræðu hennar um að miklar breytingar væru í farvatninu í heilbrigðismálunum hvetja hana til að lesa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem þetta kemur skýrt fram.

Nú er það svo að mjög svipaðar áætlanir voru uppi í ríkisstjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1999. Reyndar er eitt af því sem ég hef þurft að gera að leysa upp nefnd sem átti að framkvæma það. Ætli hún hafi ekki verið sett á laggirnar 1999 en hún fundaði sex sinnum og lítið kom út úr því.

Það tengist, eins og menn þekkja, kostnaðargreiningu, fjármagn fylgir sjúklingi, og öðru slíku sem hefur verið fagnað mjög af þeim aðilum innan heilbrigðiskerfisins sem hafa stýrt stofnunum, sérstaklega Landspítalanum. Sú stofnun er komin lengra og var komin miklu lengra í þeirri vinnu en ráðuneytið á sínum tíma. Það er rétt að halda því til haga þegar reynt er að gera þetta að tortryggilegu máli og svo að því sé til haga haldið er enginn að hvika frá því markmiði okkar að sjá til þess að hér verði heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða fyrir alla Íslendinga.

Þetta snýst um að nota þau tæki sem menn hafa gert í öðrum löndum með góðum árangri og er ekkert leyndarmál að við horfum sérstaklega til Svíþjóðar í því efni.

En ég minni hér á mikilvægi hófstilltrar umræðu þegar við ræðum þessi mál. Það er mikilvægt núna eins og ávallt þegar menn tala um hluti eins og þessa. Hér er um það að ræða eins og við þekkjum að upp er komin staða hjá mjög mikilvægum starfsmönnum, bæði geislafræðingum og hjúkrunarfræðingum sem er öflugt starfsfólk sem sinnir afskaplega mikilvægum störfum og öllum er ljóst að framlag þess er mjög mikilvægt.

Eins og menn þekkja, virðulegi forseti, eru deilur um kaup og kjör ekki á borði heilbrigðisráðherra og deilur um vaktafyrirkomulag ekki heldur að öllu jöfnu. Hins vegar hvílir ábyrgð á þjónustunni hér og er þetta mál nú komið í þann farveg að allra leiða er leitað til að ná lausn í málinu.

Ég legg áherslu á að hér er ekki um sparnaðarráðstöfun að ræða, heldur fyrst og fremst endurskipulag vakta. Eins og þingheimi er kunnugt kynntu stjórnendur Landspítalans þá ákvörðun sína í fyrradag að fresta breytingum á vaktafyrirkomulagi fyrir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga og geislafræðinga fram til 1. október nk. Þetta gerðu stjórnendur í því augnamiði að tryggja lengri tíma til samráðs og var ætlunin að nýta þann tíma til að fara yfir ýmsar hugmyndir um fyrirkomulag vaktanna í sjúkrahúsinu. Fresturinn var til þess ætlaður að finna nýjar útfærslur í samvinnu við starfsmenn. Ég ítreka það, að finna nýjar útfærslur í samvinnu við starfsmenn. Mér finnst að þetta hafi kannski ekki komið alveg nógu skýrt fram og er það miður.

Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun hjá stjórnendum spítalans að taka þessa ákvörðun. Eins og við hins vegar þekkjum drógu hjúkrunarfræðingar ekki uppsagnir sínar til baka en geislafræðingar munu fresta þessu um einn mánuð og vilja freista þess að ná samkomulagi. Ég fagna þeirri ákvörðun.

Varðandi aðkomu mína að þessu máli er þetta eins og allir vita afskaplega stórt mál og mikilvægt að ná eins góðri lausn og lendingu og mögulegt er. Mun ég leggja mitt af mörkum, og hef gert það, til að leysa þetta. Ég hef verið í góðri samvinnu við stjórnendur spítalans sem tóku þessa ákvörðun í byrjun árs og jafnframt hef ég átt mjög góðan og málefnalegan fund með hjúkrunarfræðingum og kynnt mér sjónarmið þeirra.

Við þeim blasir margvíslegur vandi. Þeir vinna erfið störf og hefur verið skortur á sérmenntuðu fólki, ekki síst að undanförnu. Hluti skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga þarf að vinna mun meira en þeir vilja vegna aðstæðna á deildum. Við lausn þessarar deilu þarf því að horfa til margra og ólíkra þátta í vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga. Ég hef átt góðar viðræður í dag við hjúkrunarfræðingana og vænti þess að svo verði áfram.

Það er hins vegar orðið nauðsynlegt að skipuleggja viðbrögð fari allt á versta veg og stjórnendur og starfsmenn Landspítalans hafa verið að undirbúa viðbragðsáætlun sem ætlað er að tryggja öryggi sjúklinga. Jafnframt kallaði ég í gærkvöldi til stjórnendur annarra sjúkrahúsa sem geta hlaupið undir bagga ef til útgöngu kemur og hafa þeir þegar skilað fyrstu hugmyndum sínum um aðstoð. Náið samstarf verður milli þeirra og stjórnenda LSH komi til þess að hjúkrunarfræðingar standi við uppsagnir sínar.

Virðulegi forseti. Ég vonast samt sem áður til þess og við hljótum öll að vonast til þess að ásættanleg lending náist þannig að ekki þurfi að koma til þeirra mála. Ég veit að við öll hér inni erum einbeitt í því og munum leggja okkar af mörkum til að svo megi verða.