135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:11]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það stefnir í neyðarástand, ekki eingöngu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi heldur í heilbrigðisþjónustunni um allt land. Það ástand sem nú siglir í á háskólasjúkrahúsinu mun hafa áhrif um allt land, sérstaklega hér á nærsvæðinu.

Það að 100 skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar og geislafræðingar skuli standa við uppsagnir sínar segir okkur hvað þau vinnubrögð sem hafa viðgengist hjá stjórnendum stofnunarinnar hafa verið stíf og lítið samráð verið haft við þessa starfsmenn á því þriggja mánaða tímabili sem liðið er frá því að þeir sögðu upp. Dýrmætum tíma hefur verið sóað og við stöndum nú frammi fyrir neyðarástandi.

Forsendur fyrirhugaðra breytinga hafa verið á floti, þ.e. sparnaður, samræming og nú síðast vinnulöggjöf Evrópusambandsins, þessi hringlandaháttur sýnir vel á hve veikum grunni stífni stjórnendanna byggist.

Það verður að hafa ríkt í huga að þó að uppsagnir skurðstofuhjúkrunarfræðinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi taki gildi á sama tíma og almennir kjarasamningar BHM renna út sögðu þær upp á eigin forsendum og sem einstaklingar og liggja uppsagnirnar því algjörlega fyrir utan almenna kjarasamninga. Uppsagnirnar beinast að einni stofnun og afmörkuðu vinnuferli innan háskólasjúkrahússins.

Hæstv. forseti. Það þarf mikið til og það er eitthvað mikið að í því vinnuumhverfi og þeim kjörum sem hrekur svo stóran hóp sérfræðinga innan (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustunnar og kvennastéttar til slíkra örþrifaráða. Heilbrigðisþjónustan (Forseti hringir.) er borin uppi af konum, fjöldinn er í umönnun og þjónustu. Vaktavinna er (Forseti hringir.) og verður hlutskipti þessara kvenna og þessum kjörum og starfsaðstöðu verður að breyta. Ábyrgðin er heilbrigðisráðherrans.