135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:14]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Landspítalinn er flaggskip íslensks heilbrigðiskerfis en það er alveg ljóst að Landspítalinn er ekki mikið án starfsfólksins sem þar vinnur mikið og gott starf. Það ástand sem hugsanlega skapast á Landspítalanum er því grafalvarlegt. Ég bind hins vegar miklar vonir við að hægt verði að komast hjá neyðarástandi á Landspítalanum eins og hefur verið gert reyndar varðandi geislafræðingana.

Ég vil því hvetja aðila máls til að setjast niður á ný og reyna að komast að niðurstöðu sem allir aðilar geta sætt sig við, lausn sem er bæði í samræmi við reglur en einnig í einhverju samræmi við óskir starfsfólksins. Við verðum að finna lausn á þessu máli. Við höfum enga aðra valkosti.

Auðvitað er það áhyggjuefni að starfsánægja á Landspítalanum er ekki meiri en raun ber vitni. Við því verður að bregðast. Fólki verður að líða vel á vinnustað sínum, ekki síst með kjör sín og vinnutíma. Sáttin er lykilatriði en hún næst ekki fram nema með sveigjanleika.

Herra forseti. Stjórnvöld taka þetta mál mjög alvarlega. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt sitt af mörkum og mun halda áfram að gera svo. Heilbrigðisnefnd Alþingis mun sömuleiðis fara yfir málið seinna í dag á sérstökum aukafundi. Það er hagur okkar allra að þetta mál leysist fljótt og vel.