135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:20]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í ræðu sinni hér áðan að hann hefði átt í viðræðum við hjúkrunarfræðinga sem hafa sagt upp störfum á Landspítalanum í dag. Við verðum að vona og óska að þær leiði til jákvæðrar niðurstöðu. Það er góðs viti að geislafræðingar hafa þegar frestað uppsögnum sínum um mánuð þannig að við væntum hins besta af viðræðum ráðherra við hjúkrunarfræðingana. Það skiptir miklu máli að menn eru að ræða saman. Það hafa allir áhyggjur af þeirri stöðu sem hefur verið uppi og ekki síst hjúkrunarfræðingarnir sem hafa sagt upp, sem gera sér sennilega manna best grein fyrir áhrifum þessara aðgerða á þjónustu spítalans, og ég veit að staðan veldur þeim miklum áhyggjum.

Skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar eru mjög sérhæfðir fagaðilar sem hafa aflað sér áralangrar sérþekkingar og reynslu í störfum sem enginn annar getur leyst af hendi. Deilan snýst fyrst og fremst um fyrirkomulag vinnutíma þótt sjónarmið um laun og öryggi sjúklinga hafi einnig borið á góma. Vinnutímatilskipunin hefur á undanförnum árum leitt af sér margvíslegar breytingar á vinnutíma starfsmanna á heilbrigðisstofnunum landsins, en þær hafa komist á í gegnum kjarasamninga og með samkomulagi við starfsmenn. Mjög misvísandi upplýsingar hafa hins vegar komið fram um áhrif hinna áður boðuðu breytinga á vinnutímafyrirkomulag, m.a. á laun hjúkrunarfræðinga, og hefur því bæði verið haldið fram að þær leiði til sparnaðar og til kostnaðaraukningar hjá spítölunum og áhrif þeirra á öryggi sjúklinga eru heldur ekki ljós. Breytingarnar snúast reyndar einnig um samræmingu á vinnutilhögun á skurðstofum í Fossvogi og á Hringbraut og um ráðstafanir til að efla spítalana til að takast á við breytta tíma, aukið umfang og breyttar kröfur um nýtingu skurðstofa á sérhæfðasta sjúkrahúsi landsins.

Vel má vera að betur hefði mátt standa að undirbúningi og ég tel reyndar að sú staða sem upp er komin hafi meira með mannleg samskipti að gera en nokkuð annað. Það þarf að ná niðurstöðu í málið og það er kappsmál allra. Heilbrigðisnefnd mun nú klukkan fjögur funda um málið á sérstökum fundi eins og fram hefur komið. (Forseti hringir.) Ég veit að aðilar munu nota daginn í dag og ég veit að þeir munu reyna að gera sitt fyllsta til að ná niðurstöðu.