135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:32]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir hófsama og málefnalega umræðu og ítreka það sem ég sagði hér áðan: Það er mjög mikilvægt, og það er ástæðan fyrir því að stjórnendur spítalans settu fram þá tillögu að fresta gildistökunni, að aðilar komi að málinu og fari yfir það. Ég nefndi það sérstaklega í ræðu minni að kannski hefði það ekki komið nógu skýrt fram, þó að það komi skýrt fram í fréttatilkynningunni sem þeir sendu út.

Ég les beint úr henni, með leyfi forseta:

„Vegna sjónarmiða sem fram hafa komið, að starfsmenn fái lengri tíma til samráðs og til að koma að sínum sjónarmiðum, hefur frestun þessi verið ákveðin. Jafnframt er höfð til hliðsjónar sú áskorun sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga setti fram um lengri tíma til að tryggja samráðsferli milli stjórnenda og starfsmanna.“

Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram, enn og aftur, og þetta stendur að sjálfsögðu.

Ég er afskaplega ánægður, virðulegi forseti, með hvernig umræðan hefur farið hér fram. Ég er ekki viss um — það kom mjög skýrt fram hjá fulltrúa Vinstri grænna — að forstöðumenn spítalans hefðu átt að fresta uppsögnunum. Ég er ekki viss um, virðulegi forseti, að það hefði haft góð áhrif. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki ráðherra, virðulegi forseti, það er forstöðumaður og það kemur skýrt fram í 46. gr.

Það er mjög auðvelt að gera mistök í stöðu sem þessari. Ég er ánægður með hvernig umræðan var hér vegna þess að við erum öll sammála um að við viljum ekki sjá þessa stöðu lengur. Við erum öll sammála um að það er mjög mikilvægt að þeir góðu aðilar sem að málum koma fái niðurstöðu sem allir geta sætt sig við.