135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

franskar herþotur.

[13:42]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að það sama gildi um þessar frönsku sveitir og hefur hingað til gilt um bandarískt lið sem var á Íslandi í hartnær 60 ár með vopn á jörðu niðri og með vopn í flugvélum sem hér fóru um. Ég geri ekki ráð fyrir því að einhverjar aðrar reglur gildi um Frakka en Bandaríkjamenn sem hafa verið hér í áratugi og sinnt þessu eftirliti. Ég geri ráð fyrir því að það sama eigi við. Ef talið er að setja þurfi sérstakar reglur á vegum ríkislögreglustjóra þá er það dómsmálaráðuneytisins að fara yfir það en Frakkarnir gefa ekkert sérstakt tilefni til þess.

Að tala um vígvæðingu íslenskra varnarmála er náttúrlega slíkt öfugmæli að allt annað (Gripið fram í.) — vígvæðingu, sagði þingmaðurinn hér áðan. Það hefur ekki verið minna um vígbúnað á Íslandi í 60 ár en er nú um stundir. Þetta eru öfugmæli hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í: Enda erum við komin til Afganistans og Íraks.)