135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

endurskoðun kvótakerfisins.

[13:46]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef margoft lýst því yfir að breytingar sem gerðar eru á fiskveiðistjórnarkerfinu eigi að gera vegna þróunar frekar en að þar sé um að ræða kollsteypur. Ég held að allra hluta vegna sé langskynsamlegast að standa þannig að málum og ekki síst vegna þess hve sjávarútvegurinn gegnir miklu hlutverki. Við þurfum auðvitað að gera þær kröfur til sjávarútvegsins og sjávarútvegurinn til stjórnvalda að hann hafi einhvern fyrirsjáanleika sem hann getur stuðst við og þess vegna hefur sjávarútvegsstefnan verið í stöðugri endurskoðun. Það hefur oft verið bent á að gerðar hafi verið miklar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða og ég geri ráð fyrir að þær breytingar muni halda áfram þó að ég telji sjálfur og ítreki að þær eigi að vera á grundvelli þróunar en ekki kollsteypu.

Það er alveg rétt að í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það að fara skuli yfir reynsluna af aflamarkskerfinu og sérstaklega með hliðsjón af stöðu byggðanna. Að því verður unnið. Það hefur verið unnið að því að draga saman tilteknar upplýsingar en hins vegar hefur ekki verið skipuð sérstök nefnd í þessum tilgangi en ég geri ráð fyrir að það verði gert nú á vormánuðum og hún geti þá unnið í þessum efnum.

Hins vegar hafa ýmsir aðrir þættir verið til sérstakrar athugunar. Nefnd sem starfað hefur á mínum vegum hefur m.a. verið að fara yfir einn þátt fiskveiðistjórnarkerfisins sem hefur verið mjög umræddur, þ.e. framsalsþátturinn. Sú vinna er í gangi en niðurstaðan liggur ekki fyrir í þeim efnum.

Hv. þingmaður spurði hvort ég vildi afleggja kvótakerfið. Ég tel mig hafa svarað því með því sem ég vísaði til. Og varðandi línuívilnunina þá er ekki á þessari stundu að vænta neinna sérstakra breytinga á því fyrirkomulagi. Ég tel reyndar að línuívilnunin hafi almennt talað reynst vel. Hins vegar var hún sett, og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, við þær forsendur að við vorum að veiða meiri afla og þess vegna datt niður dauður hluti af þeirri línuívilnun sem ella hefði getað verið notuð.