135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

endurskoðun kvótakerfisins.

[13:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ekki voru svörin skýr við þeim spurningum sem ég bar fram. Ég held að ég verði að byrja á að endurtaka spurninguna um línuvilnunina: Hyggst sjávarútvegsráðherra breyta reglum þannig að sá afli sem gert var ráð fyrir í línuívilnuninni nýtist til þess að halda úti veiðum og vinnslu og auka það eins og frekast er kostur á þessu fiskveiðiári eða hyggst hann færa heimildirnar á milli fiskveiðiára og nýta þær á næsta fiskveiðiári?

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að sjávarútvegsráðherra hefur ekki mikinn vilja til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Og enda þótt við höfum haft fyrir því orð og athafnir samfylkingarþingmanna hvað gera þyrfti í kvótakerfinu, m.a. Jóhönnu Sigurðardóttur sem kallaði sjálfstæðismennina gæslumenn kvótans, gjafakvótans, (Forseti hringir.) þá virðist ekki vera vilji til þess í ríkisstjórninni að lagfæra það kerfi sem við búum við þó að það hafi engum árangri skilað.